Saga Royal Enfield mótorhjólanna

Saga Royal Enfield mótorhjólanna

Saga eins þekktasta merkis mótorhjólasögunnar spannar yfir þrjár aldir en Royal Enfield hóf framleiðslu á reiðhjólum árið 1898, þá undir nafninu Enfield Cycle Company. Enfield mótorhjól eru enn framleidd í Indlandi og hafa gengið í nýja lífdaga með auknum vinsældum mótorhjóla. Margir sjá í þeim nostalgíuna ljóslifandi enda byggir núverandi hjól á meira en hálfrar aldar gamalli hönnun. Fyrst skulum við þó líta aðeins á upphafið og rekja sögu merkisins.

Byrjaði aldamótaárið

Fyrsta mótorhjólið frá Royal Enfield var framleitt aldamótaárið 1900 en vélin kom frá utanaðkomandi aðila. Sum þessara hjóla höfðu vélina fyrir framan stýrið og dreif hún þá framhjólið. Framleiðsla á þessum mótorhjólum hætti árið 1905 en hófst svo aftur árið 1910 þegar Royal Enfield framleiddi mótorhjól með V2 vél sem var 425 rsm og skilaði 2,25 hestöflum. Hjólið hafði það fram yfir mörg samtíma mótorhjól að það var með gírdrifinni olídælu, í stað hinnar algengari handpumpu sem þurfti að pumpa í sífellu. Fyrir seinni heimsstyrjöldina hafði Royal Enfield framleitt 770 rsm hjól með JAP vél auk 211 og 346 rsm hjóla. Framleiðsla á eigin vélum hóft þó ekki fyrr en 1914 þegar tvö hjól komu fram á sjónarsviðið, eins strokks 225 rsm tvígengishjól og 425 rsm V2. Eftir fyrri heimsstyrjöldina framleiddi Royal Enfield 976 rsm V2 og héldu áfram framleiðslu á 225 rsm tvígengishjólinu í ýmsum gerðum, algengust var tveggja gíra 225L sem var framleitt til ársins 1929 en einnig var framleidd svokölluð "dömuútgáfa" með opinni grind.

Margar gerðir á millistríðsárunum

Árið 1924 kom fyrsta eins strokks 350 fjórgengishjólið með JAP vél. Það var fljótlega leyst af hólmi með eigin 350 rsm vélum, bæði síðuventla og toppventla. Frá 1927 framleiddi Royal Enfield 488 rsm hjól með fjögurra gíra kassa. 1928 kom nýtt 225 rsm hjól á markað með síðuventlavél. Margar útgáfur voru framleiddar fyrir seinni heimsstyrjöldina, meðal annars lítið 146 rsm tvígengishjól allt upp í 1140 rsm V2 sem kom á markað árið 1937. Árið 1936 var JF hjólið frá Royal Enfield talið með því besta sem bauðst þá, en hjólið var með þýðgengri fjögurra ventla vél sem skilaði 19 hestöflum. Vegna sparnaðar var ventlunum fækkað niður í tvo áður en stríðið hófst. Í seinni heimsstyrjöldinni framleiddi Royal Enfield WD hjól fyrir herinn í tugþúsunda tali sem flest fóru til landhersins en nokkur þúsund fóru einnig til breska flughersins. Enduðu nokkur þeirra hérlendis og eru hátt í tugur þeirra til í mismunandi ástandi. Árið 1939 kostaði model H með 570 rsm vél og hliðarvagni 60 pund, en það hafði 85 km hámarkshraða. K módelið var 1140 rsm V2 með síðuventlavél. H módelið var tekið úr framleiðslu árið 1940. Loks kom Firefly hjólið fram á sjónarsviðið í byrjun stríðsins, líklega 1941.

Fyrsta Bullet hjólið

Fyrsta Bullet hjólið kom á markað árið 1931 sem fjögurra ventla eins strokks hjól, en reyndar fékk það ekki Bullet nafnið fyrr en 1932. Það var með hallandi vél og opnum ventlum. G módelið sem kom fram árið 1935 var mun nútímalegra með lóðréttum strokk og hlífum fyrir ventla og undirlyftur. Það var með gírdrifinni magnetu og double-ended eccentric olíudælu. Á næstu árum komu fram útgáfur með tveimur, þremur eða fjórum ventlum. Hjólið kom aftur á markað árið 1949 en þá sem alveg nýtt hjól. Árið 1947 framleiddi Royal Enfield fyrsta hjól sitt með vökvadempurum að framan en það kallaðist J2. Ári seinna kom 25 hestafla 500 rsm tveggja strokka hjól, svar Royal Enfield við hinu vinsæla Triumph Speed Twin. Það hjól var í framleiðslu til 1958. Bullet kom aftur árið 1949 og 499 rsm útgáfa af Bullet hjólinu kom svo árið 1953 en það varð ekki vinsælt. Báðar útgáfurnar voru einnig með afturfjöðrun. Árið 1952 kom 125 rsm tvígengishjól auk hins tveggja strokka 650 rsm Meteors, 1954 eins strokks 250 rsm og loks Crusader hjólin árið 1957.

Uppgangur á sjötta áratugnum

Árið 1955 voru gerðar gagngerar endurbætur á verksmiðju Royal Enfield í Redditch og sáust þær vel í bættum útgáfum Bullet hjólanna frá 1956-1960. Komu þá á markað hjól sem byggðu á keppnishjólum verksmiðjunnar, 350 rsm Trials og Clipper hjól. Gerðar voru margháttaðar breytingar á hjólinu eins og á pústkerfi, sæti, handföngum, mælum og bensíntanki. Árið 1956 kom rafall í hjólið og betri kveikja. Þótt 350 rsm hjólið héldi áfram í framleiðslu var hætt með 500 rsm hjólið árið 1961. Einnig var hjól sem kallaðist Airflow framleitt í stuttan tíma en það var með vindkúpu. Aðrar gerðir sem Royal Enfield framleiddi frá 1955 voru Crusader, sem var fyrirrennari Continental, Super 5, Meteor Minor, 500 Sport Twin, Super Meteor, Constellation og Interceptor, þá með tveimur blöndungum. Crusader hjólið var með álheddi og nýjum sveifarási, stærri ventlum og blöndungum. Það gat náð 125 km hraða og skilaði 17 hestöflum. Árið 1962 kom Super 5 útgáfan með hærri þjöppu og fimm gírum og náði hjólið þá 133 km hámarkshraða. Fimm gíra kassinn var þó aldrei áreiðanlegur enda þurfti hann að komast fyrir í sama kassa og gamli, fjögurra gíra kassinn.

Enfield sem Indian í Bandaríkjunum

Á þessum árum seldi Royal Enfield einnig mótorhjól í Bandaríkjunum undir merki Indian. Var um sömu gerðir og í Evrópu að ræða en þeim var breytt fyrir ameríkumarkað með því að bæta á þau aukahlutum. Sanntrúaðir Indian eigendur urðu þó aldrei hrifnir af hjólum eins og Meteor 700 í Indian útgáfu sinni og færri slík hjól seldust en báðar verksmiðjurnar höfðu gert sér vonir um. Besta söluhjólið var tveggja strokka 500 hjólið, bæði sem torfæruhjól og Fury götuhjól með stærri blöndungi. Árið 1960 endaði samstarf Royal Enfield og Indian merkið leið undir lok þegar breska AMC merkið eignaðist það. Árið 1961 vann Eddie nokkur Mulder Big Bear þolaksturskeppnina á Enfield hjóli. Þetta gaf merkinu tækifæri að ná fótfestu undir sínu eigin nafni á ameríkumarkaði. Elliot Shulz vann flestar moldarhringskeppnirnar á Enfield hjóli og Enfiled hjól unnu alls 31 af 39 keppnum það árið.

Hætt framleiðslu 1970

Árið 1962 var Royal Enfield í Bretlandi selt nýjum aðilum og hætt var framleiðslu á Bullet línunni. Nýju eigendurnir veðjuðu á 250 rsm tvígengishjól, Continental GT sem byggði á Crusader hjólinu. Hjólið var með fimm gíra kassanum sem entist illa og bilaði í sífellu, svo að á endanum voru hjólin seld ný með ókeypis fjögurra gíra gírkassa til vara. Í stuttan tíma var það hraðskreiðasta 250 hjólið á markaðinum en missti þá forystu fljótlega til japönsku keppinautanna sem þá voru að láta til sín taka. Árið 1967 var verksmiðjunni í Redditch lokað en þó var framleiðslu 736 rsm V2 Interceptor hjólsins haldi áfram í stuttan tíma. Samkeppnin frá Japan var orðin mjög hörð enda komu þaðan tæknilega fullkomin hjól sem voru mun ódýrari en Evrópuhjólin. Nýju eigendurnir náðu ekki að reisa merkið við og Royal Enfield hætti framleiðslu í Bretlandi árið 1970. Þær 200 Interceptor velar sem eftir voru í verksmiðjunni voru seldar til Rickman og notaðar í framleiðslu á Metisse keppnishjólinu.

Áfram framleidd í Indlandi

Vegna markaðssamnings við Indland hélt þó framleiðsla á Royal Enfield hjólum áfram í Indlandi. Þar voru framleidd Bullet hjól nánast eins og þau voru framleidd í Bretlandi árið 1955, og eru framleidd enn hálfri öld síðar. Árið 1995 fékk indverska verksmiðjan Royal Enfield merkið til sinna einkanota og síðan þá hafa verið gerðar nokkra breytingar á hjólinu, þó ekki miklar. Þrjár gerðir eru framleiddar í dag, Bullet Sixty-5, Bullet Electra og Euro Classic sem er sérstaklega fyrir Evrópumarkað með betri mengunarvörnum. Tvö slík hjól voru nýlega flutt til landsins. Einnig hefur verksmiðjan í Indlandi framleitt tilraunaútgáfu í litlu magni af dísildrifnu Bullet hjóli.

Nýjustu fréttir
Kurs jazdy na motor...
Informujemy, |e Bifhjólaskólinn Aðalbraut (szkola jazdy motorem) przeprowadzi...
Styttist í ađ...
Vegna góðrar veðurtíðar er stutt í að verkleg...
Frítt...
Viđ hjá Ađalbraut bjóđum uppá ţá nýjung ađ bjóđa ókeypis A1 mótorhjólapróf ţegar ţađ er tekiđ...

Mótorhjól til leigu

 

Við erum í góðu samstarfi við mótorhjólaleiguna Off Road Tours og bjóðum nemendum okkar að leigja mótorhjól á sérkjörum. Tvær gerðir ferðahjóla eru í boði, Honda NC750X og Honda Africa Twin 1000 og fást þau einnig leigð með töskum og galla. Þau eru auðveld í akstri og því tilvalið að leigja sér hjól einn dag til að halda kunnáttunni við. Einnig er hægt að leigja léttari 250 rsm torfæruhjól sem við bjóðum einnig uppá sérstök námskeið á. Hafðu samband við okkur í síma 869-1330 til að fá leigt hjól.

Njáll Gunnlaugsson

Búðu til þitt eigið nafnspjald