Aston Martin DB9
Með skemmtanagildið á hreinu
 
Sú skemmtilega tilviljun, eða kannski ekki, gerðist um daginn að til landsins var kominn Aston Martin DB9 sportbíllinn um leið og nýjasta James Bond myndin, Casino Royale var frumsýnd. Við hjá Bílar og Sport gátum auðvitað ekki látið slíkt tækifæri fram hjá okkur fara og höfðum því samband við Höfðahöllina sem kom að innflutningi bílsins til landsins. Var það auðsótt mál að fá að prófa bílinn og óhætt að segja að dagurinn hafi þotið nokkuð hratt hjá svo ekki sé meira sagt. En fyrst aðeins að sögu Aston Martin og tengsl merkisins við Bond myndirnar.
 
Skírður eftir eigandanum
Viðskeytið DB kemur til sögunnar árið 1947 þegar David nokkur Brown eignast Aston Martin merkið, en hann hafði séð það auglýst í smáauglýsingu í Times blaðinu fyrir 20 þúsund pund. Allir DB sportbílarnir heita því eftir honum sem er dálítið kaldhæðnislegt þegar það er haft í huga að David Brown ók alltaf Jagúar XJ sem var beinn keppinautur Aston Martin. David Brown var mikill ævintýramaður og keppti í kappakstri bíla og mótorhjóla og var þar að auki með flugmannsréttindi. Hann hafði efnast mjög mikið á framleiðslu Ferguson traktora í seinni heimsstyrjöldinni og var fljótur að koma framleiðslu Aston Martin á réttan kjöl.
DB5 og James Bond

Í raun og veru var aldrei smíðaður DB1 en Aston Martin DB2 fór í framleiðslu árið 1950 og fjögurra dyra útgáfa hans, sem er forfaðir DB9 bílsins og var kallaður DB2/4 kom á sjónarsviðið árið 1953. Árið 1958 var komið að DB4 en afsprengi hans var hinn frægi DB4 GT og þá sérstaklega Zagato útgáfa hans sem þótti sérstaklega fallegur bíll. Virðing Aston Martin sem sportbíls náði þó hámarki þegar ákveðið var að nota DB5 bílinn í James Bond myndunum Goldfinger og Thunderball, með Sean Connery í aðalhlutverki. Meðal þess búnaðar sem að Sean Connery hafði úr að spila í bílnum var Browning vélbyssa, dekkjaskurðarhnífar sem gátu dregist aftur, radar í vindskeiðinni með skjá í mælaborði og síðast en ekki síst eldflaugasæti fyrir farþegann. Aston Martin DB5 birtist svo aftur seinna í Goldeneye myndinni, en þá lék Pierce Brosnan njósnarann í fyrsta skiptið. Voru tveir DB5 bílar notaðir í myndinni.

Hallar undir fæti
Eftir þetta fór aðeins að halla undir fæti hjá Aston Martin og næsti bíll, sem var DBS bíllinn þótti bæði of þungur og ofhlaðinn óþarfa prjáli. Ólíkt DB5 bílnum sem Bond hafði notað áður var enginn sérstakur tæknibúnaður í DBS bílnum, ef undan er skilið sérhannað hanskahólf fyrir riffil með kíki. Í lokaatriði myndarnnar er kona James Bond, Tracy, skotin meðan hún situr í bílnum. DBS bíllinn tók við af DB6 og var með fjögurra lítra línusexu undir húddinu. Hann var líka stærri og var með fjögur sæti í fullri stærð. Kannski var það engin tilviljun að Sá Bond sem hafði verið fenginn til að aka DBS bílnum gekk ekki vel heldur, en hann hét George Lazenby og lék aðeins í einni Bond mynd, On Her Majesty’s Secret Service árið 1969. Arftaki hans í starfi Roger Moore, notaði líka Aston Martin DBS V8 bíl í þáttaröðinni The Persuaders áður en að hann tók við starfi í þjónustu hennar hátignar. Sá bíll var aðeins með V6 vél þótt hann liti út eins og V8 bíll.
Viðsnúningur með aðstoð 007

Eftir nokkrar myndir með Lotus birtist Aston Martin að nýju árið 1987 sem Bond bíll í The Living Daylights. Þá var það Timothy Dalton sem ók V8 Volante blæjubíl sem var í eigu þáverandi stjórnarformanns Aston Martin, Victor Gauntlett. Bíllinn sem var sprendur í loft upp var þó bara skelin. Sérbúnaður Bond var eftirtektarverður eins og alltaf og var hann að þessu sinni með laserbyssu í hjólunum og dekk sem að skutu út nöglum þegar það þurfti. Segja má að núverandi viðsnúningur hjá Aston merkinu hafi komið 1996 þegar DB7 var kynntur undir hatti Ford, sem þá hafði nýlega keypt sportbílaframleiðandann. Bond átti aftur stóran þátt í þeim viðsnúningi því að aftur var Aston Martin í aðalhlutverki árið 2002 í myndinni Die Another Day. Árið áður hafði “Hverfandinn” eða Vanquish verið kynntur en hann gaf einmitt fyrirheit um útlit næsta bíls, DB9 sem var frumsýndur 2005. Fyrir utan hinn hefðbunda Bond vopnabúnað gat hann líka “horfið” með því einu að ýta á takka.

DBS snýr aftur í Casino Royale

Aston Martin bíllinn í nýjustu Bond myndinni Casino Royale, er í raun uppfærður DB9 og kallaður DBS. Daniel Craig sem hinn nýi Bond ekur líka í gömlum DB5 árgerð 1964 í myndinni. DBS bíllinn er byggður á sama undirvagni og DB9 og hefur sama hjólhaf en er 25 mm lægri og 40 mm breiðari. Öll loftinntök eru stærri enda þarf meiri kælingu fyrir sex lítra vélina sem á að vera komin vel yfir 500 hestöfl í þessari útgáfu. Að aftan er loftdreifari úr koltrefjum og auka vindskeið. Meðal staðalbúnaðar er sex gíra beinskipting og skeiðklukka í mælaborði sem hægt er að taka með sér. Í Casino Royale er hjálmahilla fyrir aftan ökumannssætið en hún verður ekki í framleiðslubílnum. Aðeins verða byggð 300 eintök af hinum nýja DBS.

Einstaklega falleg hönnun

En aftur að reynsluakstrinum. Það efast enginn um fallega hönnun Henrik Fisker en smíði bílsins er fullkomin í alla staði. Það var ekki hjá því komist að vekja athygli á þessum bíl og þeir vegfarendur sem maður mætti góndu margir hverjir úr sér augun. Það hafa þeim þó örugglega verið vonbrigði að sjá að ökumaðurinn var ekki íklæddur smóking að þessu sinni.Yfirbyggingin og grind er úr áli og þar notar Aston Martin tækni frá Lotus sem er nokkurs konar samanlíming. Fyrir vikið er bíllinn helmingi stífari en DB7 en samt 25% léttari. Lögð var höfuðáhersla á jafna þyngdardreifingu og til að átökin við bílinn skiluðu sér ómenguð er engin rafmagnsaðstoð á fjöðrun eða stýri. Var auðvelt að hafa stjórn á honum þótt búið var að missa bílinn í talsverða yfirstýringu. Bíllinn er á tvöfaldri klafafjöðrun allan hringinn enda liggur hann alltaf eins og klessa.

Aksturstölva með gervigreind

Sex lítra V12 vélin er í grunninn sú sama og í Vanquish en með smá breytingum skilar hún 450 hestöflum sem öll komast til skila, þökk sé tregðulæsingunni í afturhjóladrifinu. Skiptinginn er sportleg þrátt fyrir að vera sjálfskipting í grunninn og satt best að segja hefur aldrei verið jafn gaman að keyra sjálfskiptan bíl. DB9 bíllinn er fyrsti framleiðslubíllinn í heiminum með gervigreind innbyggða í aksturstölvu sína. Þar sem að bíllinn er tólf strokka var erfitt að fylgjast með hvort að einhverjar aukasprengingar ættu sér stað í brunanum. Þótt slíkt kunni að virðast óreglulegt er það annað mál þegar horft er á það í langan tíma, en þá kemur oft ákveðið mynstur í ljós. Þannig getur kerfið skynjað hvað telst raunveruleg hætta fyrir vélina og kveikir á aðvörunarljósi við það, en ekki við eina óreglulega sprengingu eins og sumir bílar gera. Í framtíðinni mun þessi tækni gera tölvunni kleift að læra á ökumanninn og láta hann vita að fara fyrr í olíuskipti til dæmis, ef aksturinn er búinn að bjóða upp á það.

Engin gírskipting

Að innan er mikið vandað til efnisvals og allt ekta eins og bíllinn. Sjá má við, ál, leður og rússkinn í stað plast og gerfiefna. Uppsetning bílsins að innan er í bland hefðbundin og óvenjuleg. Til að mynda er engin gírstöng fyrir sjálfskiptinguna. Hægt er að nota valskiptingu með blöðkum úr stýri en í stað handskiptingar í miðjustokki eru þar bara nokkrir takkar til að velja áfram, afturábak, hlutlausan eða stöðugír. Hraðamælirinn minnir á kafaraúr og undir mílumælinum má sjá að kílómetratalan nær yfir 300. Setan í bílnum er mjög þægileg fyrir mann sem er 183 sm á hæð eins og undirritaður en stutt var í þakið samt sem áður. Aldrei þarf að taka hendur af stýri með þessari skemmtilegu valskiptingu. Hægt er svo að slökkva á spólvörninni í stigum líkt og í BMW. Athygli vakti að handbremsan er vinstra megin til að spara rými milli sæta og fellur hún dauð niður þegar búið er að setja hana á. Ég hélt fyrst að hún væri eitthvað biluð þar til að maður áttaði sig á að hún er höfð svona til að auðvelda manni inn- og útstig.

Aftursæti til sýnis
Að komast í aftursætin var þrautin þyngri og ekki einu sinni hægt að kalla þau smábarnasæti, svo lítil og þröng eru þau. Eftir talvert puð var hægt að komast í sætið en hausinn þurfti að halla undir flatt til þess. Þótt að farangursrýmið sé ekki stórt eða 186 lítrar má ætla að það rúmi eina sæmilega stóra ferðatösku, sem er líklega allt sem að eigandi slíks bíls þarf að taka með sér. Hvort að golfsettið passi skal ég þó ekki segja, líklega er það of mjótt til þess. Eins og áður sagði er bíllinn til sölu þegar þetta er skrifað hjá Höfðahöllinni og er verðmiðinn 25 milljónir. Þannig liggur hann mitt á milli Porsche 911 Turbo og Ford GT í verði. Líklega er það vel sloppið fyrir stöðutákn eins og þennan bíl sem jafnframt er fyllilega samkeppnishæfur við þá á skemmtanaskalanum.

 

Verst að ekki er hægt að koma hljóðinu til skila á prenti, en tólf strokkar á snúningi er sinfónía í eyrum bílaáhugamannsins.

Mynd: Tryggvi Þormóðsson.

Print
Nýjustu fréttir
Kurs jazdy na motor...
Informujemy, |e Bifhjólaskólinn Aðalbraut (szkola jazdy motorem) przeprowadzi...
Styttist í ađ...
Vegna góðrar veðurtíðar er stutt í að verkleg...
Frítt...
Viđ hjá Ađalbraut bjóđum uppá ţá nýjung ađ bjóđa ókeypis A1 mótorhjólapróf ţegar ţađ er tekiđ...

Mótorhjól til leigu

 

Við erum í góðu samstarfi við mótorhjólaleiguna Off Road Tours og bjóðum nemendum okkar að leigja mótorhjól á sérkjörum. Tvær gerðir ferðahjóla eru í boði, Honda NC750X og Honda Africa Twin 1000 og fást þau einnig leigð með töskum og galla. Þau eru auðveld í akstri og því tilvalið að leigja sér hjól einn dag til að halda kunnáttunni við. Einnig er hægt að leigja léttari 250 rsm torfæruhjól sem við bjóðum einnig uppá sérstök námskeið á. Hafðu samband við okkur í síma 869-1330 til að fá leigt hjól.

Njáll Gunnlaugsson

Búðu til þitt eigið nafnspjald