Mustang GT Premium

Kaggi með krafta í kögglum

 

Það er óhætt að segja að það var skemmtilegt í vinnunni hjá undirrituðum um daginn, en þá höfðum við til reynsluaksturs glænýjan Ford Mustang GT V8 í Premium útgáfu. Fáir bílar hafa kitlað mann meira og þar sem að biðin eftir honum hefur verið nokkur var eftirvæntingin því meiri. Fyrir hugskotssjónum runnu minningar um rúnta og ferðir á Mustang ´71 sem að bróðir minn átti. Sá bíll hafði alvöru sleggju undir húddinu, 351 Cleveland vél með flækjum og fjögurra hólfa blöndung og reikspólaði þegar hann skipti upp í annann á botngjöf.
 
Með sterka ímynd
 
Fyrirfram hafði maður vissar efasemdir um að upplifunin yrði eitthvað eins og í minningunni, en viti menn, sama tilfinningin gerði strax vart við sig um leið og maður settist niður í leðursætin. Það fyrsta sem mætti augunum voru djúpir hraða- og snúningsmælar með krómhring líkt og í gamla bílnum. Gluggasyllan er hærri en að öðru leyti er margt svipað, lítið útsýni er til hliðanna en stórir speglar gera sitt til að bæta fyrir það. Hár miðjustokkurinn er með snubbóttri en samt þægilegri skiptingu. Að vísu er innréttingin dálítið plastleg og aftursætin bara í barnastærð en þessum bíl fyrirgefst margt. Eina sem að pirraði undirritaðan var sú staðreynd að stýrið er ekki með aðdrætti en þægilegasta setan var aftarlega svo að nokkuð þurfti að teygja sig í stýrið. Þegar hönnuðir Ford settust niður að hanna þennan bíl var byrjað með hreint blað og gamla útgáfan fór beint í ruslafötuna. Greinilegt er að upphaflegi bíllinn var þeim ofarlega í huga enda tókst þeim vel upp með að gera bílinn bæði gamaldags og nýtískulegann í sömu andránni. Hann hefur svo sterka ímynd að nafnið Mustang kemur ekki einu sinni fram utan á bílnum.
 
Öflugur kaggi
 
Eins og áður er grunnútgáfa Mustang með 210 hestafla V6 vél og fimm gíra Tremec T-5 beinskiptingu eða 5R55S sjálfskiptingu. Um 60% kaupenda bílsins taka hann í þeirri útgáfu en fyrir þá sem vilja alvöru Mustang kemur ekkert annað til greina en V8 með GT merkingu. Álblokkin kom fyrst fram á sjónarsviðið í 1996 árgerð Mustang Cobra en þriggja ventla heddið kemur úr F-150 pallbílnum. Soggreinin er ný og tölvustýrð ventlaopnun tryggir honum 300 hestöfl til að spila úr. Nánast sömu skiptingar eru í boði nema að hlutföllin í afturdrifinu eru 3,55 í stað 3,31 í V6 bílnum. Ekki er hægt að lýsa hljóðinu frá V8 vélinni svo vel sé. Kaggahljóðið er ennþá þarna en án þess að vera hreinn hávaði. Aflið er tilkomumikið og hann tekur strax við sér, en fær svo auka spark þegar hann er kominn á snúning og ventlaopnunin eykst. Sjálfskiptingin er sterkbyggð og ásamt 8,8 tommu afturdrifi sér hún vel um að koma aflinu til afturhjólanna.
 
Bíll með sýniþorf
 
Nýi undirvagninn er hvorki meira né minna en 49% stífari en í fyrri kynslóð. Engir hlutir úr gamla bílnum voru notaðir við hönnunina. Hjólhafið er 145 mm lengra sem fékkst með því að færa framhjólin framar, sem bætir einnig þyngdardreifinguna. Bremsurnar eru einnig stærri og betri en áður. Þótt að Mustang hafi ekki sama veggrip og til dæmis Porsche eru aksturseiginleikar ekki síðri, bara örðuvísi. Þegar ekið er hratt í gegnum beygju gerir örlítil undirstýring vart við sig en með því að gefa snögglega inn fer hann í netta yfirstýringu og málinu er reddað. Í stuttu máli gerir hann einfaldlega allt það sem maður býst við af honum. Með því einu að stíga létt á bremsuna um leið og gefið er inn byrjar hann strax að mökka og með því að sleppa bremsunni og leggja létt á stýrið slædar hann 180 gráður eins og ekkert sé. Það eina sem er erfitt við þessa eiginleika hans er að þeir valda hálfgerðri sýniþörf sem er kannski ekki alltaf viðeigandi.
 
Sér á parti
 
Erfitt er að telja upp hugsanlega keppinauta við þennan bíl, aðra en sportbíla á sviðuðu verði. Einn helsti kostur hans er að þessi bíll hefur upp á nákvæmlega sama að bjóða og Mustang gerði fyrir meira en þrjátíu árum síðan, því hann er flottur, feiki öflugur og á fínu verði sem að flestir hafa efni á. Ódýrasta útgáfan byrjar í 2.860.000 kr. sem er svipað og venjulegur fólksbíll í stærri millistærð. Vel búin GT Premium útgáfan sem við höfðum til prófunar kostar 3.860.000 kr. og sjálfskiptingin bætir 150.000 kr. við þá tölu.
 
Mynd: Tryggvi Þormóðsson.
Print
Nýjustu fréttir
Kurs jazdy na motor...
Informujemy, |e Bifhjólaskólinn Aðalbraut (szkola jazdy motorem) przeprowadzi...
Styttist í ađ...
Vegna góðrar veðurtíðar er stutt í að verkleg...
Frítt...
Viđ hjá Ađalbraut bjóđum uppá ţá nýjung ađ bjóđa ókeypis A1 mótorhjólapróf ţegar ţađ er tekiđ...

Mótorhjól til leigu

 

Við erum í góðu samstarfi við mótorhjólaleiguna Off Road Tours og bjóðum nemendum okkar að leigja mótorhjól á sérkjörum. Tvær gerðir ferðahjóla eru í boði, Honda NC750X og Honda Africa Twin 1000 og fást þau einnig leigð með töskum og galla. Þau eru auðveld í akstri og því tilvalið að leigja sér hjól einn dag til að halda kunnáttunni við. Einnig er hægt að leigja léttari 250 rsm torfæruhjól sem við bjóðum einnig uppá sérstök námskeið á. Hafðu samband við okkur í síma 869-1330 til að fá leigt hjól.

Njáll Gunnlaugsson

Búðu til þitt eigið nafnspjald