Land Rover Discovery 3

Bætir um betur

 

Á markað er komin þriðja kynslóð Land Rover Discovery en fráfarandi kynslóð kom á markað árið 1998. Sá bíll þótti að mörgu leyti góður en glímdi þó alla tíð við hönnunargalla á yfirbyggingu eins og hátt innanrými, þröngar hurðir sem opnuðust illa og vafasamann frágang á afturhlera. Þess vegna lék blaðamanni nokkur forvitni á hvernig hönnuðum Land Rover hefði tekist að leysa þessa hluti.
 
Laus við galla eldri bílsins
 
Óhætt er að segja að undirritaður varð ekki fyrir vonbrigðum því að tekist hefur að losna við öll gömlu umkvörtunarefnin. Land Rover Discovery 3 er byggður á grind eins og alvöru jeppa er siður en það sem er óvenjulegt er að botn yfirbyggingarinnar er lagaður að henni þannig að hún er ekki lengur fest ofan á grindina sem að lækkar þyngdarpunkt bílsins. Sama tækni er fyrir hendi í Ford Explorer og ekki langt að sækja þessa hönnun því að Land Rover merkið er í eigu Ford eins og margir þekkja. Drifsköftin ganga í gegnum þverbitana í grindinni og þannig er hægt að fletja út gólfið sem að bætir innanrými. Hliðarhurðir hafa stækkað umtalsvert og opnast vel þannig að maður labbar nánast inn í bílinn eins og hús og sest svo niður í ökumannssætið. Stórar hurðirnar eru þó ekki lausar við galla því að þær geta haft sína ókosti í þröngum stæðum þar sem þær opnast lítið við hliðina á öðrum bílum. Einnig eru þær þungar og þarf dálítið að skella þeim svo þær lokist fullkomnlega. Aðgegni að farangursrými er nú miklu betri og í stað þess að opna hlerann út á hlið með varadekki er það nú komið undir bílinn. Fyrir vikið er lægsti punktur bílsins þar undir og liggur tvöfalt pústkerfið í kringum dekkið en Land Rover leysir þó vandann með því að færa afturhjólastell mun aftar á nýja jeppanum svo að þetta skemmir ekki fráhorn hans. Afturhlerinn sjálfur er nú tvískiptur og opnast neðri hluti hans niður þannig að hlaða má á hann eða jafnvel sitja á honum.
 
Með rúmbetri jeppum
 
Óhætt er að segja að himinn og haf aðskilur kynslóð tvö og þrjú þegar kemur að innanrými og aðgegni. Sæti eru stór og rúmgóð og þrátt fyrir sjö sæti er gott pláss fyrir alla. Meira að segja í aukasætaröðinni er ágætis pláss fyrir fætur þar sem að komin er hola í gólfið sem að sætin falla svo ofan í þegar á þarf að halda. Gott pláss er fyrir þrjá fullorðna í miðjusætaröð og sætin þar veita næstum jafn góðan hliðarstuðning og stór framsætin. Hægt er að fella niður báðar aftari sætaraðirnar þannig að flatt gólf myndast sem er þó örlítið hærra við miðjusætaröðina. Allur frágangur á innanrými er til muna betri og efnisval einnig en samt er haldið í verklegan frágang eins og stóran miðjustokk sem fer bílnum mjög vel. Bíllinn er vel búinn og á praktískan hátt frekar en til þæginda en leðursæti eru aukabúnaður. Útsýni er sérlega gott á alla kanta enda gluggar og speglar stórir og A-biti óvenju mjór. Meira að segja öftustu hliðarrúður eru með upphitun sem ætti að auka öryggi í skammdeginu. Þó er útsýni aftur um baksýnisspegil ekki mikið þegar aftasta sætaröð er í uppréttri stöðu enda höfuðpúðar þeirra stórir.
 
Góður á malbiki sem utan þess
 
Í akstri er Discovery 3 lipur og þægilegur þrátt fyrir sín 2,5 tonn. Hann liggur vel á vegi, þökk sé tvöföldum klöfum og loftpúðafjöðrun og góð fjöðrun sem lengi hefur verið eitt af aðalsmerkjum Land Rover er söm við sig. Fyrir þá sem kjósa að nota bílinn mest innanbæjar er loftpúðafjöðrunin ótvírætt betri kostur þar sem að bíllinn er heilum 5 sm lægri á henni að öllu jöfnu. V6 dísilvélin er togmikil og hljóðlát og hentar þessum þunga bíl einkar vel. Líkt og áður má búast við að langflestir kaupi bílinn með dísilvélinni enda getur munað meira en helming á eyðslutölum V8 vélarinnar. Þrátt fyrir háan vindstuðul er óvenjulítið vindgnauð í þessum stóra bíl þannig að aksturinn á langkeyrslunni er mjög þægilegur. Sölumenn Land Rover kalla hann borgarjeppa en samt skal ekki útiloka hann strax sem torfærujeppa enda kom hann töluvert á óvart við þær aðstæður. Í reynsluakstrinum gafst tækifæri til að reyna hann bæði í miklum snjó og svo forarsvaði og bleytu og stóðst hann vel allar þær raunir er lagðar voru fyrir hann. Fyrir meðaljóninn sem veit lítið um stillingar á driflæsingum eða virkni millikassa er komið skemmtilegt tölvustýrt drifkerfi sem að hægt er að stilla á fimm mismunandi vegu. Til dæmis þegar skipt er yfir á hálkukerfið seinkar tölvan viðbragði í olíugjöf og er hægt að nota þá stillingu í bæði háa og lága drifinu. Þegar sett er í klöngurstillinguna fer bíllinn svo sjálfkrafa í lága drifið. Einnig velur hann veghæð eftir vali á kerfi og hraða. Spólvörn virkar vel þegar á reynir og í drullusvaði var hann laus við að spóla sig niður en hægt er að slökkva á henni þegar spól getur komið sér vel eins og þegar ekið er í lausum snjó. Til að setja svo punktinn yfir i-ið er hið þróaða hallaviðnám Landrover sjálfvirkt þannig að það kemur inn þegar ekið er niður bratta í lága drifinu.
 
Hækkar nokkuð í verði
 
Öll þessi herlegheit eru ekki ódýr enda kostar grunnútgáfa hans tæpar fimm og hálfa milljón króna. Líklegt er þó að flestir taki bílinn með loftpúðafjöðrun og sex þrepa sjálfskiptingu og er hann þá kominn vel yfir sex milljónir. Keppir hann þannig við verð á lúxusjeppum eins og VW Touareg og Volvo XC90 en á móti kemur að Discovery er vel búinn að mörgu leyti og hentar vel þeim sem þurfa að flytja mikið eða marga og komast hvert á land sem er á sem þægilegastan máta.
Print
Nýjustu fréttir
Kurs jazdy na motor...
Informujemy, |e Bifhjólaskólinn Aðalbraut (szkola jazdy motorem) przeprowadzi...
Styttist í ađ...
Vegna góðrar veðurtíðar er stutt í að verkleg...
Frítt...
Viđ hjá Ađalbraut bjóđum uppá ţá nýjung ađ bjóđa ókeypis A1 mótorhjólapróf ţegar ţađ er tekiđ...

Mótorhjól til leigu

 

Við erum í góðu samstarfi við mótorhjólaleiguna Off Road Tours og bjóðum nemendum okkar að leigja mótorhjól á sérkjörum. Tvær gerðir ferðahjóla eru í boði, Honda NC750X og Honda Africa Twin 1000 og fást þau einnig leigð með töskum og galla. Þau eru auðveld í akstri og því tilvalið að leigja sér hjól einn dag til að halda kunnáttunni við. Einnig er hægt að leigja léttari 250 rsm torfæruhjól sem við bjóðum einnig uppá sérstök námskeið á. Hafðu samband við okkur í síma 869-1330 til að fá leigt hjól.

Njáll Gunnlaugsson

Búðu til þitt eigið nafnspjald