Audi TT

Taka tvö

 

Þegar Audi TT kom fyrst á markað árið 1998 vakti hann strax athygli fyrir nýstárlegt útlit og ferska hönnun. Þrátt fyrir það náði hann aldrei að keppa almennilega við Porsche eins og honum var ætalð í upphafi enda var Audi TT framhjóladrifinn og er það reyndar enn. Það tókst honum heldur ekki þótt á markað kæmu útgáfur með tuskutoppi og fjórhjóladrifi. Spurningin er hvort að annarri kynslóð hans gangi betur í samkeppninni.
 
Ákveðnara útlit
 
Nýja kynslóðin byggir á undirvagni VW Golf með nokkrum breytingum þó og er bæði lengri og breiðari en fyrri kynslóð. Hann heldur nokkru af útliti gamla bílsins en verður um leið straumlínulagaðri og með minni loftmótstöðu. Ljósin setja mun meiri svip á bílinn en áður og eru að mati undirritaðs sérlega vel heppnuð. Tveir þriðju yfirbyggingarinnar eru úr áli sem léttir bílinn mikið þannig að hann er hátt í 100 kg léttari en fyrri kynslóð. Gamli bíllinn var nokkuð gagnrýndur fyrir að vera hættulegur á miklum hraða og laus að aftan og þess vegna er vindskeið nú staðalbúnaður, en hún kemur sjálfkrafa upp við 120 km hraða en fer svo niður aftur þegar farið er undir 80 km hraða. Einnig er hægt að lyfta henni með takka á milli sæta.
 
Flottur frammí en þröngur afturí

Það er meira pláss í nýja bílnum og það fer betur um mann. Maður situr mjög lágt og útsýni er ekki mikið vegna þykkra og bogadreginna A og B-bita. Plássið í aftursætum er svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir og höfuðpláss ekki fyrir fullorðna, svo mikið er víst. Ekki reyndist hægt að koma þar fyrir barnabílstól með góðu móti í aftursæti þar sem að festingar fyrir belti eru einfaldlega of framarlega. Þess vegna þarf að setja stólinn í framsæti sem heftir enn meira aðgegni að aftursætunum. Farangursrými er samt óvenjugott miðað við bíl í þessum flokki og þar gefur hann keppinaut sínum Porsche langt nef. Það fer vel um mann í ökumannssæti bílsins og stuðningur við fætur er góður sem skiptir máli þegar farið er að taka aðeins á bílnum. Innréttingin er sérlega vel heppnuð, sportleg en samt fáguð um leið og hvergi ofhlaðin skrauti. Stýrið er þó aðeins öðruvísi en maður á að venjast með flötum botni til að búa til meira pláss fyrir fætur. Sá tilgangur virðist nú samt heldur léttvægur miðað við hverju er verið að fórna, því að þegar nota þarf stýrið hratt og örugglega vill sá hluti flækjast fyrir og vera til ama.
 
Skemmtilegur þrátt fyrir framhjóladrifið
 
Í stuttu máli sagt er nýr Audi TT einn skemmtilegastu framhjóladrifsbíll sem ég hef prófað, ef ekki sá skemmtilegasti. Stýrið svarar einstaklega vel og þegar maður leggur hann í beygjur verður maður fyrst var við nokkra undirstýringu enda bíllinn með vélina frammí. Því er nú samt fljótreddað með því að kippa létt í stýrið í hina áttina fyrir beygjuna og losa hann aðeins að aftan, svona í Golf stíl ef svo má segja. Þá er hann skyndilega orðinn yfirstýrður í gegnum beygjuna en samt auðvelt að hafa stjórn á honum, þökk sé afar nákvæmu stýrinu. Sem betur fer er hann líka blessunarlega laus við togstýrinu þrátt fyrir töluvert afl. Bíllinn liggur mun betur en Golf og er mjög stöðugur á vegi áður en hann missir gripið til hjólanna. Prófunarbíllinn var með tveggja lítra FSI vélinni sem er útbúinn forþjöppu og skilar honum rausnarlegum 200 hestöflum. Nægir að horfa á upptakstölur til að sjá hversu miklu þessi vél er að skila en því má líka þakka sjálfskiptingunni. S-Tronic sjálfskiptingin sem hann var búinn er í raun og veru með tvöfaldri kúplingu og sú besta á markaðinum að margra mati. Bíllinn er eldfljótur að skipta sér og það skrýtna er það að hann er fljótari í hundraðið en ef hann er með beinskiptingu. Einnig er hann með takkaskiptingu í stýri sem að undirrituðum hefur hingað til fundist frekar leiðinlegur búnaður þar sem að skiptingarnar í öðrum bílum gerast mun hægar. Ekki í þessum bíl, svo mikið er víst!
 
Svipaður í verði
 
Í þessari útfærslu kostar Audi TT 5.290.000 kr. en fyrir rúma eina og hálfa milljón í viðbót fær maður quattro fjórhjóladrif og V6 vél sem skilar 50 hestöflum í viðbót. Spurningin er hvort að bílverð á einum Polo réttlæti þann litla mun. Sambærilegur BMW Z4 Roadster með 2,5si vélinni kostar mjög svipað eða 5.250.000 kr. Aðrir verðugir keppinautar væru Mercedes-Benz SLK eða Porsche Cayman, allt afturhjóladrifnir bílar sem í flestra huga hafa þar með vinninginn.
 
Myndir: Tryggvi Þormóðsson.
Print
Nýjustu fréttir
Kurs jazdy na motor...
Informujemy, |e Bifhjólaskólinn Aðalbraut (szkola jazdy motorem) przeprowadzi...
Styttist í ađ...
Vegna góðrar veðurtíðar er stutt í að verkleg...
Frítt...
Viđ hjá Ađalbraut bjóđum uppá ţá nýjung ađ bjóđa ókeypis A1 mótorhjólapróf ţegar ţađ er tekiđ...

Mótorhjól til leigu

 

Við erum í góðu samstarfi við mótorhjólaleiguna Off Road Tours og bjóðum nemendum okkar að leigja mótorhjól á sérkjörum. Tvær gerðir ferðahjóla eru í boði, Honda NC750X og Honda Africa Twin 1000 og fást þau einnig leigð með töskum og galla. Þau eru auðveld í akstri og því tilvalið að leigja sér hjól einn dag til að halda kunnáttunni við. Einnig er hægt að leigja léttari 250 rsm torfæruhjól sem við bjóðum einnig uppá sérstök námskeið á. Hafðu samband við okkur í síma 869-1330 til að fá leigt hjól.

Njáll Gunnlaugsson

Búðu til þitt eigið nafnspjald