Alfa Romeo 159

 

Nýr Alfa Romeo er kominn á götuna frá nýju umboði Fiat og Alfa Romeo, PTT ehf. Alfa 159 tekur við af Alfa 156 sem var vel tekið fyrst þegar hann kom fram á sjónarsviðið og hlaut þá meðal annars verðlaunin Bíll ársins í Evrópu 1997. Sá bíll er þó ekki alveg eins vinsæll í dag enda hálfgerður vandræðabíll og þekktur fyrir bilanir. Þess vegna fékk Alfa Romeo til liðs við sig Karl Heinz Kalbfell sem áður var yfirmaður M-deildar BMW og gerði hann umtalsverðar breytingar á tæknibúnaði nýja bílsins. Meðal annars er komin tímakeðja í stað reimar og einnig var fjöðrunarbúnaður endurhannaður, en bæði þessi atriði voru veikir punktar í gamla bílnum.

 
Það dylst engum sem lítur nýjan Alfa 159 að á ferðinni er sérlega fallegur og sportlegur bíll sem vekur eftirtekt. Allar línur eru hvassar og sportlegar og bíllinn virkar breiðari en ella með útvíkkunum á brettum. Að framan er hvöss trjónan og þrískipt framljósin áberandi og líkist hann þannig engum öðrum bíl í dag. Að innan kveður í sama tón, leðurinnréttingin sem er í þeim bílum sem seldir verða hérlendis er sérlega falleg með ísaumi í bæði stólum og hurðarspjöldum. Efnisval hefur líka stórbatnað og er hann ljósárum frá gamla bílnum í því tilliti. Segja má að hann hafi loksins unnið sér rétt til að keppa við þá bíla í lúxusflokki sem hann hefur alltaf viljað bera sig við, Benz, BMW, Lexus og Audi. Mælarnir horfa á ökumanninn og allt er sportlega uppsett, til að mynda er gírstöngin þægilega staðsett og með frekar stuttar skiptingar. Vel fer um ökumann enda góður stuðningur undir fætur og stýri fjölstillanlegt. Höfuðrými er þó í minna lagi og þá sérstaklega í aftursætum og einnig mætti fótarými varla vera minna afturí.
 
Flest atriði í innréttingu eru vel útfærð eins og glasahólf milli sæta sem einnig er með flipa sem opnar öskubakka með sígarettukveikjara, sniðug lausn sem tekur lítið pláss. Fyrir vikið verður þó frekar langt að teygja sig í handbremsu en það er atriði sem venst. Hanskahólf veldur einnig vonbrigðum enda rúmar það varla meira en eina kilju eða svo. Miðstöðin er tvöföld og með tölvustýringu og fyrst þegar greinarhöfundur notaði hana virkaði hún ruglingsleg með ljósum á snúningshnappi sem tákna eiga hvert verið er að blása loftinu. Þegar maður hafði svo vanist þessari uppsetningu kunni maður mjög vel við hana enda auðvelt að sjá stillinguna við hvaða aðstæður sem er. Bíllinn fær fimm stjörnur í árekstrarprófunum EuroNCAP sem verður að teljast góður árangur en líkt og í Saab 9-5 þarf að sérpanta Isofix festingar fyrir barnabílstóla. Líkt og margir bílar í dag er Alfa 159 aðeins með rafmagnsopnun á farangursrými, annað hvort frá lykli eða hnapp sem er staðsettur hjá lesljósunum. Þetta veldur óhagræði ef komast þarf í skottið með vélina í gangi en þá þarf að teygja sig inn í bílinn til að opna það.
 
Þegar kemur að akstrinum lætur bíllinn ljós sitt skína svo um munar. Eins og áður sagði er gírkassi sportlegur og lipur í skiptingum, einnig í bakkgírinn. Stýri er næmt og fljótt að svara án þess að vera of létt. Snúningur borð í borð er aðeins rúmlega tveir og hálfur hringur sem er eins og í sportbíl. Reyndar mætti það leggja betur á fyrir vikið en ekki verður á allt kosið. Bíllinn liggur sérlega vel og hallar lítið út úr beygjunum og losar þannig ekki framhjól eins og 156 bíllinn vildi gera. Samt er ekki eins og bíllinn virki of hastur á ósléttum vegi. Eins og áður sagði eru nýju 1,9 og 2,2 lítra bensínvélarnar nú komnar með tímakeðju í stað reimar og á hún að endast líftíma vélarinnar. Þar að auki voru gerðar nokkrar breytingar á vélinni til að minnka titring enda hún orðin mjög þýðgeng. Bíllinn er seldur hér með 150 hestafla 1,9 lítra dísilvélinni sem er góður kostur í þessum bíl, sérstaklega vegna minni eyðslu. Búið er að endurhanna einbunukerfið til að minnka hávaða og titring, og með nýrri forþjöppu er búið að auka tog á lægri snúningi. Aðeins vottar fyrir hiki frá lágsnúningi en óverulega þó. Togar vélin vel í öllum gírum og þótt sjötti gírinn sé svo hár að hann henti aðeins þriggja stafa tölu er togið vel finnanlegt þar líka. Síðast en ekki síst eru bremsur eins og þær gerast bestar enda bremsar bíllinn í kyrrstöðu frá 100 km hraða á aðeins 36 metrum.
Print
Nýjustu fréttir
Kurs jazdy na motor...
Informujemy, |e Bifhjólaskólinn Aðalbraut (szkola jazdy motorem) przeprowadzi...
Styttist í ađ...
Vegna góðrar veðurtíðar er stutt í að verkleg...
Frítt...
Viđ hjá Ađalbraut bjóđum uppá ţá nýjung ađ bjóđa ókeypis A1 mótorhjólapróf ţegar ţađ er tekiđ...

Mótorhjól til leigu

 

Við erum í góðu samstarfi við mótorhjólaleiguna Off Road Tours og bjóðum nemendum okkar að leigja mótorhjól á sérkjörum. Tvær gerðir ferðahjóla eru í boði, Honda NC750X og Honda Africa Twin 1000 og fást þau einnig leigð með töskum og galla. Þau eru auðveld í akstri og því tilvalið að leigja sér hjól einn dag til að halda kunnáttunni við. Einnig er hægt að leigja léttari 250 rsm torfæruhjól sem við bjóðum einnig uppá sérstök námskeið á. Hafðu samband við okkur í síma 869-1330 til að fá leigt hjól.

Njáll Gunnlaugsson

Búðu til þitt eigið nafnspjald