Piaggio MP3
Allt er þegar þrennt er
 
Eitt óvenjulegasta mótorhjól til að koma fram á sjónarsviðið á síðustu árum er eflaust nýjasta afurð Piaggio, en það kallast MP3. Fyrirbærið að tarna er svo óvenjulegt að fólk getur ekki stillt sig um að skoða gripinn, hvort sem er í umferð eða utan hennar. Þeir voru margir hausarnir sem snérust þegar þetta öfugsnúna þríhjól birtist og meðan á myndatöku stóð í reynsluakstrinum lá við umferðarteppu inni í miðju íbúðarhverfi. Tvö dekk að framan er líka eitthvað sem maður sér venjulega ekki á mótorhjóli en þau eru samt þarna fyrir ástæðu, því að aksturseiginleikarnir eru líka alveg sér á parti fyrir vikið. Það segir sig eiginlega sjálft að tvö dekk að framan gefa helmingi betra grip og það finnur maður um leið og farið er að aka hjólinu. Allt í einu eru holur eða brunnhlemmar ekkert áhyggjumál í beygjum lengur. Óhætt er að segja að undirritaður lét reyna vel á gripið að framan og aldrei fann maður að það skrikaði til eða léti eitthvað óþægilega. Of t er sagt að maður getur orðið góðu vanur en hvort það sé hollt eftir að hafa ekið þessu hjóli skal ósagt látið, allavega þurfti maður að halda aftur af sér í beygjum á sínu eigin hjóli eftir reynsluakstur á MP3.
 
Tvöföld öfugstýring
 
Það sem kom undirrituðum mest á óvart var hversu létt stýringin er þrátt fyrir aukna þyngd að framan. Fyrir vikið var öfugstýring eins og hugur manns við akstur þess og virkni hennar örugglega tvöföld líka eins og annað. Hjólið nær allt að 40 gráðu halla í beygjum sem er eiginlega of lítið því að með allt þetta grip að framan er maður fljótur að nýta það til fulls. Gripið að framan kemur líka að góðum notum þegar bremsað er, og auðvelt að láta hjólið lyfta afturendanum.
 
Sleppt að setja niður fætur
 
Einn af sniðugustu fídusunum við hjólið er án efa læsingin fyrir framhjólin, en með einum takka hægra megin á stýri er hægt að læsa stöðu framhjólanna. Hægt er að gera það á ferð undir 10 km á klst og fyrir vikið var maður fljótur upp álagið að nýta sér það, og sleppa því að setja niður fætur á ljósum. Læsingin fer svo af sjálfkrafa um leið og gefið er inn. Hægt er að læsa þeim í halla líka svo að það má leggja því nánast hvar sem er. Prófað var að legga því með annað hjólið uppi á gangstétt og viti menn, hjólið stóð þar eins og klettur og datt ekki á hliðina. Þar sem það er enginn hliðarstandari er kominn handbremsa til að halda hjólinu á sínum stað í halla.
 
Stórt sæti og farangurshólf
 
Að hefðbundnari þáttum í akstri hjólsins. Sætishæðin er í hærra lagi sem er kostur í akstri og gefur útsýni yfir hinn venjulega fólksbíl. Sætið gæti verið í hærra lagi fyrir lágvaxna því það er frekar breitt líka. Það er líka vel bólstrað og þægilegt og þá ekki síður fyrir farþega en fótapláss fyrir farþega er af skornum skammti. Undir sætinu er hefðbundið geymslurými líkt og í öðrum Vespum en þetta hjól er líka með aukaskotti og þess vegna er hægt að koma tveimur hjálmum fyrir í farangursrýminu, sem er alls 65 lítrar. Opnunin á því er tvískipt, annars vegar með svissi fyrir skottið og svo fjarstýringu í lykli fyrir opnun á sætinu sjálfu. Dálítill tvíverknaður en það venst eins og annað. Að ósekju mætti framrúðan vera aðeins hærri því að vindurinn af henni kom beint framan í ökumanninn, en hægt er að fá hærri framrúðu sem aukabúnað. Framljósin eru sérstaklega góð og lýsa eins vel og bíll. Mælaborðið er stórt og vel læsilegt sem er alltaf kostur í mótorhjóli. Hluti þess er stafrænn og með aksturstölvu og meira að segja útihitamælir, sem getur komið sér vel í akstri á veturnar. Vel á minnst, ef einhverntíman hefur verið smíðað hjól sem hentar vel í akstri að vetri er það komið hérna. Bara að henda undir míkróskornum dekkjum eða nelgdum og keyra eins og sumar væri.
 
Dýrt en vel búið
 
Hvort hjólið eigi eftir að hitta í mark á Íslandi verður að koma í ljós en þetta hjól er strax selt.
Hjólið sló strax í gegn í Evrópu og þurfti til dæmis að fresta frumsýningu þess tvisvar í Bretlandi þar sem að hjólið seldist upp á meginlandinu. Kannski er verðið í það hæsta fyrir Vespu en kostirnir ættu að vega upp á móti því að þurfa að punga út rúmum 940 þúsund krónum fyrir 250 rúmsentimetra hjólið.
Print
Nýjustu fréttir
Kurs jazdy na motor...
Informujemy, |e Bifhjólaskólinn Aðalbraut (szkola jazdy motorem) przeprowadzi...
Styttist í ađ...
Vegna góðrar veðurtíðar er stutt í að verkleg...
Frítt...
Viđ hjá Ađalbraut bjóđum uppá ţá nýjung ađ bjóđa ókeypis A1 mótorhjólapróf ţegar ţađ er tekiđ...

Mótorhjól til leigu

 

Við erum í góðu samstarfi við mótorhjólaleiguna Off Road Tours og bjóðum nemendum okkar að leigja mótorhjól á sérkjörum. Tvær gerðir ferðahjóla eru í boði, Honda NC750X og Honda Africa Twin 1000 og fást þau einnig leigð með töskum og galla. Þau eru auðveld í akstri og því tilvalið að leigja sér hjól einn dag til að halda kunnáttunni við. Einnig er hægt að leigja léttari 250 rsm torfæruhjól sem við bjóðum einnig uppá sérstök námskeið á. Hafðu samband við okkur í síma 869-1330 til að fá leigt hjól.

Njáll Gunnlaugsson

Búðu til þitt eigið nafnspjald